Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008
Prófaupplestur og partýstopp
28.11.2008 | 19:04
Jæja þá er maður bara byrjaður að lesa fyrir prófin. Áætla að næstu tvær vikur verði að mestu leyti inn á bókasafni. Alveg ótrúlegt samt hvað það er erfitt að byrja að læra undir prófin, þetta kemur samt :)Horfði yfir Dublin áðan á bókasafninu og áttaði mig á því hvað lífið er komið í fastar skorður hérna í Dublin og maður er farinn að venjast því að lifa hér. Eftir að hafa búið hjá mömmu og pabba og í smábæ mest allt mitt líf þá er hálf undarlegt að vera bara búinn að venjast því að búa einn, búa í borg og búa í öðru landi. Ég er ekki frá því að þetta hafi verið akkurat það sem ég þurfti enda var tilgangurinn með ferðinni upprunalega einmitt að fara út án allra, fá nýja áskorun til að takast við og auðvitað kynnast því að búa í öðru landi. Enn sem komið er hefur þetta gengið bara nokkuð vel og verið heljarinnar lífsreynsla. Eins lengi og ég stenst öll próf þá hefur þessi ferð verið frábær, allt öðruvísi en ég hafði búist við en frábær samt og meira að segja þegar illa hefur gengið þá hefur verið frábært að hafa ekki neinn íslending eða neinn sem maður þekkti til að aðstoða mann því það hefur kennt manni að takast á við erfið mál upp á eigin spítur. Ég veit t.d. ekki hversu langur tími hefði liðið þangað til að ég hefði lært á þvottavél ef ég hefði ekki farið hingað út.. þótt það hafi nú reyndar ekki reynst jafn mikið vandamál og ég hélt í upphafi :)
Annars er það að frétta að einn meðleigjandi minn hefur verið ansi duglegur í partýstandi upp á síðkastið og síðastliðinn sunnudag þegar ég kom heim var íbúðinni full af fólki, ábyggilega 20 manns eða eitthvað og allir inn í stofu svo ég bara hreinlega komst varla inn. Ég kom svo aftur seinna um daginn heim og íbúðin var ekki á hvolfi, hún var búin að snúast marga hringi og ég ímynda mér að hún myndi líta svona út ef hún færi í þvottavél.
Á þriðjudagskvöldið fyllti hann svo aftur íbúðina af fólki og var þá djammað alla nóttina sem þýddi að ég svaf ekki eina mínútu þangað til að ég mætti í skólann og gekk þá yfir áfengisdautt fólk yfir alla íbúðina, tók tannburstan minn upp úr tannburstaglasinu sem hafði verið fyllt með hári úr einhverji stelpu og við fundum líka hluta af hári hennar bakvið sófa. Stelpan sem leigir með okkur kom svo að tali við mig daginn eftir og sagðist hafa verið skíthrædd alla nóttina því allt liðið var bara sniffandi kókaí, spítt og fleiri efni alla nóttina og það sást líka á íbúðinni enda var hún á hvolfi. Ég og stelpan sem leigir hérna með mér vorum nú aldeilis búin að fá okkur fullsödd á þessu rugli og ákváðum að tala við hann daginn eftir en svo um kvöldið kom félagi gaursins sem leigir með okkur yfir og þeir sátu bara eitthvað inn í stofu eins og þeir væru að bíða eftir einhverju. Ég fór inn að sofa og örfáum mínútum seinna bankar einhver á útidyrahurðina og ég heyri mjög dimmraddaða rödd sem ég kannaðist við að hafa heyrt áður í partýinu sem haldið var á þriðjudagskvöldið. Heyri ég svo ekki allt í einu að meðleigjandi minn öskrar að þetta sé besta "blow" sem hann hafi tekið og þeir halda eitthvað áfram að dópa þangað til að þeir loksins sofna inn í stofu.Daginn eftir, í gær, tókum ég og stelpan okkur til og héldum fund með honum og sögðust ekki líða neitt partýstand í fyrsta lagi og sérstaklega ekki í miðri viku, við vildum halda húsinu í lagi og öll fíkniefni gætu haldið sig annarstaðar en í okkar íbúð og þetta væru bara úrslitakostir ef hann ætlaði að halda áfram að búa með okkur. Hann var alveg eins og kúkur og baðst afsökunar á öllu saman og lofaði að hætta þessu öllu og halda ekki fleiri partý. Hann er því á síðasta séns og ef eitthvað fleira gerist þá fer hann út eins og skot.Þetta er mjög undarlegt því að á daginn er hann hörkuduglegur námsmaður og okkur kemur þvílíkt vel saman og erum í raun bara bestu vinir en svo á kvöldin virðist hann ekki ráða við sig.
Hér er myndband sem sýnir það hvernig íbúðin var á sunnudagskvöldið eftir fyrsta partýið. Hún var jafnvel verri eftir þriðjudagspartýið því þá voru þetta ekki stólar og dót út um allt heldur fólk og vín. Á gólfinu er sjónvarpið og stofuborðið er nú bara komið þarna bakvið sófa sko...
Ég líð nú ekki nein fíkniefni í mínum húsum en þetta er samt góð saga til að hafa í sögubankann og það verður gott að komast á Bifröst þar sem ég og Þorsteinn höfum samstöðu um rólegheit :)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Lífið er yndislegt :D
27.11.2008 | 17:57
Lífið er yndislegt :D Síðastliðin vika hefur verið ekkert minna en hörmuleg. Vikan byrjaði á því að allt varðandi heimför mína var sett í uppnám og uppnámið svo staðfest þegar deildin mín staðfesti ákvörðun sína um að hleypa mér ekki heim. Gærdagurinn var hreinlega einn versti dagur sem ég hef átt hérna á írlandi, meira að segja veðrið var vont eða mér fannst það allavegana. Í gærkvöldi sprakk svo nánast hópastarfið mitt því við vorum bara á algjörlega öndverðu meiði með allt og það var bara gjörsamlega á suðupunki og ofan á allt hélt óvissan varðandi heimför mína áfram.
Það var svo rétt efir miðnætti að ég og hópurinn náðum að sættast og taka okkur taki og klára verkefnið. Í morgun þegar ég vaknaði var svo skýnandi sól. Ég og hópurinn hittumst og náðum betur saman en nokkru sinni fyrr, við hlóum og náðum frábærlega saman, skiluðum inn verkefninu og æfðum okkur þvílíkt vel fyrir kynninguna okkar.
Fórum svo í kynninguna og ég verð bara að segja að við vorum langbesti hópurinn, kynningin okkar var bæði áhugaverð og fyndin og vel æfð og við vorum eini hópurinn sem mætti í fínum fötum og ekki skemmdi fyrir að flest önnu verkefni voru annaðhvort ekki vel æfð eða bara hreint út sagt léleg. Dagurinn hafði bara gengið frábærlega en enn var óvissa varðandi heimför mína.Ég fékk svo hringingu áðan frá alþjóðaskrifstofunni frá honum Paul sem sér um mín mál og hann sagðist hafa átt langan fund með deildinni og barist fyrir mínum rökum og það endaði með því að hann fékk þetta í gegn og ég fer heim 11. desember eins og planað var :D Svo skemmir nú ekki fyrir að þetta var síðasti dagurinn minn í fyrirlestrum svo ég er bara kominn í upplestrarfrí :D
Vikan var hreint út sagt hörmuleg og þetta náði hámarki í gærkvöldi þegar allt var á suðupunkti en í dag snérist gjörsamlega allt við og allt hefur verið leyst og þetta var bara einn besti dagur sem ég hef upplifað í Dublin :D Nú byrja ég bara að læra fyrir prófin, fer svo á laugardaginn í aukatíma hjá bókhaldara fyrir reiknishaldsprófið :D
Lífið er yndislegt og ég sé ykkur eftir 13 daga :D VÚHÚUUUU
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Mesta gremja í heimi
24.11.2008 | 14:43
ARRRRRG mig langar að brjóta rúðu, stinga kodda með hníf eða rústa einhverju. Þvílík er gremja akkurat núna og hefur verið undirliggjandi síðastliðna daga. Ég getvarla byrjað að lýsa því hvað ég er pirraður út í skólann sem ég er í. Það er eins og allir bendi bara á aðra, firri sig ábyrgð, vilji mismunandi hluti og engin sameiginleg stefna varðandi neitt sem viðkemur skiptinemum sem verða að klára fyrir jól. Síðustu vikur hafa verið þannig að það hefur verið nánast nýtt vandamál á hverjum degi varðandi brottför mína og nú virðist þetta hafa bara hreinlega siglt í strand og ég veit ekki hvernig málin verða leyst að þessu sinni, allt út af þrjósku, samskiptaleysi og sjálfsdáð þeirra sem hér starfa. Mig hefur sjaldan langað jafn mikið til að öskra af gremju.
Sko málið er að ég er í tveimur deildum hér í Griffith og þarf að hætta fyrr því að hér tekur fólk prófin í Janúar en þá er ég byrjaður á nýrri önn heima en það er ekkert óeðlilegt og skólinn hefur svona nemendur á hverju ári og leyfir þeim að klára fyrr. Ég fékk email frá konu sem sagði mér að ég myndi taka prófin mín 8-11. des og hætta í öllum fyrirlestrum 21. Nóvember til að lesa fyrir prófin og klára verkefnavinnu. Kennarinn minn í fjölmiðladeildinni sagði mér svo að ég myndi ekki taka próf í fjölmiðlaáföngunum mínum heldur gera bara aukaverkefnisem ég mætti skila eftir að ég væri farinn heim ef ég þyrfti að fara fyrr. Þetta hljómaði bara ágætlega og ég vissi bara að ég þyrfti að vera mjög mjög duglegur við verkefnavinnu til að þetta myndi allt ganga upp og ég ætti að geta komist yfir allt sem ég ætti að gera. Ég setti því bara íbúðina mína á leigumarkaðinn,fékk leigjanda og pantaði mér flugið heim og þetta byrjaði loksins að líta ágætlega vel út (fyrr á önninni hafði verið þvílík vandræði með ýmislegt varðandi lok námsinshjá mér og það leit út fyrir að vera allt leyst).
Síðasta miðvikudag sagði ég svo við kennarana mína að þetta væri síðasti fyrirlesturinn minn og spurði hvort það væri eitthvað sem þeir vildu því segja við mig t.d. varðandiaukaverkefnin eða varðandi prófið í þeim áföngum sem ég tek próf í. Þetta gekkallt mjög vel nema að allt í einu vaknaði ég upp við það að kennarinn minn í fjölmiðlaáföngunumvissi ekkert um að þetta væri síðasti fyrirlesturinn minn og var bara alls ekkisáttur við það og vildi að ég yrði í fyrirlestrum til 19. Desember því að þessikona sem hafði samband við mig væri frá viðskiptadeildinni og það sem hún segðigilti bara um viðskiptafræðiáfanga því að deildirnar hefðu ekkert samband sín ámilli, þetta væri ekki eins og með venjulega nemendur þar sem allir nemar hættaí fyrirlestrum á sama tíma heldur þyrfti ég bara að rökræða við hverja deild umhvenær ég myndi klára sem þýðir að þegar ég er að lesa undir próf í fögunum mínumog takandi prófin mín þá vill fjölmiðladeildin að ég mæti í tíma hjá þeim, ég þyrfti þá greinilega bara að fá að taka prófin mín í stofunum þar sem fyrirlestrar í fjölmiðladeildinni færu fram.
Ég fékk hann samt til að tala við deildina sínavarðandi þetta mál og ég sendi líka helstu stjórnendum deildarinnar bréf og svofékk ég svar frá honum í morgun og það var nokkurnveginn á þá leið að þeir hefðu ákveðið að það væri ekki á þeirra ábyrgð að ég væri að taka próf annarstaðar, þeirra fyrirlestrar hættu 19. Des og ég þyrfti að vera þangað til þá! Hann ætlar svo að tala við alþjóðaskrifstofunni þegar hann kemur á miðvikudaginn aftur til vinnu til að sjá hvert næsta skref er. WTF!!!!!
Gaurinn hjá Alþjóðaskrifstofunni sagði mér fyrr á önninni að vegna þess að ég væri skiptinemi en þyrfti ekki visa leyfi þá gilti mætingarskylda ekki um mig og ég þyrfti ekki að hafa áhyggjur af henni og það er í rauninni síðasta hálmstráið sem ég ætla að reyna að leggja á borðið því þótt fjölmiðladeildin sé ekki sammála því þá get ég ekki gert tekið ábyrgð á því,alþjóðaskrifstofan hlýtur að standa við orð sín.
Ég ætla heim 11. Desember þar sem ég er búinn að panta flugið, búinn að leigja út íbúðina mína, búinn að taka á móti leigu fyrir henni, amma á afmæli 12. Des, ég og Sigrún eigum 2 ára afmæli 13. Des og þetta verður bara að reddast.
Fleiri vandræði sem ég hef lent í eru meðal annars að einn kennarinn vildi að ég tæki kaflapróf í hennar áfanga sama dag og ég átti að vera í lokaprófi í öðrum áfanga en fékk það ekki í gegn, hún vildi líka að ég yrði viku lengur í fyrirlestrum hjá henni og fékk það í gegn og svo vildi hún líka að ég tæki lokaprófið mitt úr öllum fyrirlestrum til 19. Desember þótt ég yrði bara í fyrirlestrum til 21. nóvember en fékk það ekki í gegn.
Ég er gjörsamlega búinn að fá nóg af þessum leiðindum í þessum skóla og get ekki beðið eftir að hlaupa í faðm Bifrastar sem allra fyrst þótt ferðin sjálf hafi verið frábær.
Mamma, pabbi og mási komu um helgina, skrifa um það þegar ég er í betra skapi!
Úfffffffffffffff... ekki minn uppáhaldsdagur!
UPDEIT
Kemur ekki í ljós að eini gaurinn á alþjóðaskrifstofunni sem getur hugsanlega hjálpað mér eða gefið mér skýr svör er í fríi og konan sem leysir hann af hún ákvað bara að fara í frí líka. Viðskiptadeildin segir þetta mitt vandamál og fjölmiðladeildin hið sama. Vá hvað ég hata þennan kennara, er alltaf með einhvern ógeðslega smeðjulegan svip, japplar á epli og þykist vera geðveikt sniðugur þegar hann segir mér að þetta sé bara mitt vandamál og þau séu ekkert tilbúin að koma á móts við mig. Það er einhver gaur í deildinni hans sem er head of faculty en hann er sko deputy head of faculty sem þýðir að hann er svona assistant to the regional manager eins og Dwight Shrude í The Office og nýtur þess að pína fólk. Loksins þegar hann fær eitthvað vald þá ætlar hann sko aldeilis að nýta sér það. Mér finnst þetta vera dæmi um hvernig samskipti milli deilda eiga ekki að vera ef eitthvað er!
Kolbeinn
Bloggar | Breytt 25.11.2008 kl. 19:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Galway, flugmál og verkefnavinna, myndir
18.11.2008 | 18:51
Jæja um helgina fór ég í ferðalag. Að þessu sinni ákvað ég að skella mér til Galway sem er akkurat hinum megin á Írlandi, þ.e. ég er alveg í austri og Galway er alveg í vestri. Tók rúmlega 3 tíma með rútu svo ég lagði eldsnemma af stað, tók held ég rútuna kl 6 eða 7, man það ekki alveg. Ég steig út úr rútunni og fann bara hvernig allt stress og annað bara lak burtu. Þetta var eitthvað svo rólegur bær að maður fann bara kyrrðina líða yfir mann. Fékk sömu tilfinningu þegar ég fór til Cambridge á Englandi á sínum tíma. Ekkert of stór, búa held ég 72þúsund manns þarna, og reyndar fannst mér hún ekki neitt mikið stærri en Akureyri en hún er samt nokkrum sinnum stærri.Gekk um bæinn, skoðaði t.d. dómkirkjuna sem var rosaleg og hér fyrir neðan er mynd af mér í henni (b.t.w. það voru allir að taka myndir svo ég var ekkert með neitt samviskubit yfir því enda var ég sá eini sem notaði ekki flass).Kom svo aftur til Dublin kl 22:00 og skellti mér í bíó áður en ég fór í háttinn.
Hvað er annað að frétta... jú í gærkvöldi kannaði ég verðin aftur á fluginu mínu því ég hef eiginlega ekki haft efni á því að kaupa mér flug, svo blankur er maður nema hvað að flugið mitt hafði hækkað úr tuttugu og eitthvað þúsund upp í 32þúsund fyrir ekki svo löngu og var svo allt í einu komið upp í 74þúsund daginn sem ég ætlaði heim! Nú voru góð ráð dýr því ég átti 23.315 kr á reikningnum mínum :S
Ég lét ekki segja mér neitt svona rugl og fann mér flug á vegum Iceland Express sem kostaði 24.115, fékk pabba til að lána mér 800 krónurnar sem upp á vantaði og pantaði mér flugið. Reyndar verður þetta svona frekar tæpt allt saman daginn sem ég fer heim því ég lýk prófinu mínu á hádegi, á þá eftir að gera mig alveg klárann til að fara, fara upp á flugvöll, tékka mig inn, bíða eftir flugvélinni, fljúga til London, tékka mig inn þar, bíða eftir fluginu og vera kominn upp í vélina ekki seinna en 19:30 því þá fer flugið til Íslands eeen það reddast. Fann flug hjá Ryanair sem kostar bara eitthvað klink, fer kl 16:50 frá Dublin og lendir 18:05 sem gefur mér tæplega einn og hálfan tíma til að hlaupa í næstu vél og miðað við hvað ég hef ferðast mikið í ár þá ætti það ekki að taka langan tíma enda er ég einstaklega laginn við t.d. kiosk vélarnar og vopnaeftirlitið og allt það.
Mamma og pabbi koma á Fimmtudaginn og verða fram á sunnudagseftirmiðdag sem verður gaman en það þýðir líka að ég verð að vera sick duglegur þangað til að þau koma því að eftir að þau fara þarf ég að skila einu einstaklingsverkefni á miðvikudeginum og kynna svo og skila inn hópaverkefni á fimmtudeginum. Ráðgeri að klára einstaklingsverkefnið í dag og á morgun og gera líka dáldið í hópaverkefninu, nota svo sunnudagskvöldið í hópaverkefnið og alla daga fram að kynningu.
Talandi um verkefnavinnu þá skilaði ég inn verkefni í gær sem flestir höfðu svona 3 blaðsíður en ég ákvað að hafa mitt 15 blaðsíður, eyddi t.d. 10 mínútum að ákveða hversu þykk lína á forsíðunni ætti að vera og hafði bara allan pakkann. Held að ég hafi aldrei lagt jafn mikið í eitt verkefni en reyndar er ég með eitt tilbúið verkefni í tölvunni sem ég get ekki skilað strax sem verður ennþá betra
Jæja svo ég haldi áfram með 24 niðurtalninguna mína þá eru 22 dagar 22klst 21mín þangað til að ég held heimleiðis og ég er búinn að vera í burtu frá Íslandi í tæplega 75 daga:)
Hér er mynd af mér við skólann minn, haldandi á mínum daglega skammti af pepsi og í nýju Griffith College peysunni minni:
Hér er búðin sem er hjá heimilinu mínu sem ég verlsa í sem er rekin af kínverjum eða japönum sem minna mig þvílíkt á kínverjana sem eiga verslunina í Don't be A Menace, skemmtilegt það.
Hér er skólinn minn séður frá götunni
Hér er Connor meðleigjandi minn og tónlistarlegur elskuhugi minn, þ.e. við eigum í tónlistarlegu sambandi sem gengur út á að hann er sífellt að gefa mér tónlist sem er oftast frekar léleg en eitt og eitt gott lag kemur inn hér og þar og svo er hann líka byrjaður að búa til remix handa mér úr ýmsum lögum. Þegar ég hugsa út í það þá er hann líka alltaf að búa til mat handa mér sem er alltaf klikkað góður. Tónlist og matur, hvað getur maður beðið um meira...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Skúnkesía og annar djúpur húmor
15.11.2008 | 18:49
Einn vanmetnasti þáttur veraldar var hinn æðislegi þáttur Atvinnumaðurinn sem var á dagskrá árið 2003. Húmor fólks var á svo grunnu stigi á þeim tíma að það áttaði sig ekki á snilldinni á bakvið hvert atriði og hvað smáatriðin skipta miklu máli.
Hér eru tvö atriði úr þáttunum fyrir þá sem vilja athuga hvort þeir ná þessum djúpa húmor eða hvort þeir eru enn ekki að fatta snilldina á bakvið hvert atriði. Ég bendi sérstaklega á hvernig hann beitir áherslum í atriðinu um skúnkesíuna :D algjör snilld sko.
Skúnkesía
http://www.youtube.com/watch?v=RpUzP81BmY4
Gefur hænunum (klassískar línur: ekki erfitt.... eeeN LÍGJANDI! og Hann eer GEÐVEIKUR)
http://www.youtube.com/watch?v=NkL5MgEtv4A
Annars er það að frétta að ég er akkurat þessa stundina staddur í einhverjum ónefndum smábæ mitt á billi Galway og Dublin, á leiðinni til Dublin aftur. Ég skrifa og set inn fréttir um ferðina á morgun :)
Kveðja, Kolbeinn (b.t.w. þeir sem ekki fíla atvinnumanninn mega gefa sig fram, ég þarf að ræða við viðkomandi aðila varðandi hvernig okkar samband mun þróast í framhaldi)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Verkefnavika
13.11.2008 | 17:02
Verkefnavikan hefur gengið ágætlega. Er búinn með stærsta verkefni annarinnar sem endaði í 10 blaðsíðum af hreinum texta en samtals var verkefnið 16 blaðsíður með öllum pakkanum, forsíðu, heimildaskrá, efnisyfirliti og allt það og ég held að ég hafi bara aldrei lagt jafn mikið í eitt verkefni enda var ég kominn með upp í kok þegar ég loks lauk því. Á mánudaginn þarf ég svo að skila inn verkefni í Business Journalism sem er ekki nærrum því jafn langt svo ég er að vonast til þess að það klárist á morgun. Ég vakna yfirleitt á hádegi þessa dagana, fer út á bókasafn og er þar til lokunnar, 21:30 og fer þá niður í kennslustofu annarstaðar í skólanum og næ klukkutíma af aukavinnu. Þegar ég er síðan loksins rekinn út úr byggingunni fer ég heim og vinn þá með hléum til svona 2 að nóttu svo það er ekki hægt að segja annað en að það sé meira en nóg að gera hjá mér. Takmarkið er samt að fara til Galway á laugardaginn í dagsferð og þá þyrfti ég helst að vera búinn með þetta verkefni sem ég er að vinna í núna en ég á reyndar varla krónu svo það er spurning hvernig maður reddar því.
Talandi um krónur þá er ég byrjaður að plana heimferðina. Lítur allt út fyrir að ég fljúgi heim í gegnum London þann 11. Desember en á því eru tveir vankantar. Í fyrsta lagi að flugið kostar 35-40.000 kall og ég á eins og staðan er í dag 8.000kr en Þorsteinn skuldar mér smá pening og restina verð ég bara að fá hjá bankanum. Ætla samt að bíða og sjá hvort gengið gangi ekki aðeins til baka áður en ég panta. Í öðru lagi er flugfélagið sem ég flýg með til London að fara í verkfall bráðlega og mjög líklega einhverstaðar á því tímabili sem ég ætla heim. Ég gæti líka flogið heim með Ryanair en það er svo mikið lággjaldafélag að maður má varla koma með farangur og ég færi þokkalega í massíva yfirvigt en það þá gæti ég samt tekið Iceland Express heim sem er ódýrara en Icelandair...
Kostnaður + verkfall + yfirvigt = djöfulsins vandræði.
Svo koma mamma, pabb og mási eftir akkurat viku og það verður nú gaman :)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Jólin koma...
9.11.2008 | 21:42
Hér er allt að færast í jólabúninginn. Niðri á O'Connol Street (aðalgatan) er búið að setja upp fullt af skreytingum og meðal annars risastórt jólatré sem er búið til úr stórum kúlum og það breytir um lit. Fór áðan á ekki bara einn heldur 2 bari niður í bæ. Ekki það að ég sé byrjaður að drekka heldur var ég í öðru tilfellinu að vinna markaðsfræðirannsókn fyrir skólann minn og í hinu tilfellinu fannst mér að ég þyrfti að fara inn til þess að geta sagst hafa séð almennilegan írskan bar en ég fór á þekktasta barinn í Temple Bar hverfinu semsagt þennnan http://www.photohype.com/Europe/Dublin%20Temple%20Bar%209.jpg og það var geggjuð stemming þar. Írskir strákar að spila fjörug írsk lög og þegar maður kom þarna inn þá var eins og maður væri kominn aftur til baka um nokkra áratugi eða meira en ég var nú bara inni í tvær mínútur því ég þurfti að fara í þessa rannsókn. Eftir að ég var búinn í þessari rannsókn gekk ég niður á O'Connol Street og sá þá þetta jólatré og bara stemminguna sem var þar og það minnti mig á að maður verður líka aðeins að muna eftir því að njóta þess að vera hérna. Þótt það sé fáránlega mikið að gera þá kom ég nú ekki bara hingað til að læra og ég áttaði mig á því að jólin eru bara ekkert svo langt undan og ég á bara mánuð eftir svo maður þarf að passa þess að njóta þess líka að vera hérna og upplifa stemminguna sem Dublin býður upp á. Ég get nú ekki sagt þegar ég kem heim að ég hafi ekki gert mikið heldur aðalega haldið mig fyrir framan tölvuna eða inn á lesstofu. Ég er ekki að segja að ég sé ekki búinn að gera fullt en ég ætla samt að reyna að nota þann tíma sem ég á eftir til að fara og gera eitthvað ekta írskt á milli þess sem ég læri :)
Nokkrar staðreyndir:
12 dagar 02klst 32mín í upplestrarfrí
28 dagar 10klst 32mín í fyrsta próf
31 dagur 20klst 46mín í brottför
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Smá updeit
5.11.2008 | 20:27
Það er svooooooonnnnnnaaaaaa mikið að gera hjá mér. Ég ætlaði að líta um helgina til Belfast eða kannski eitthvað út á land í svona dagsferð en miðað við hvernig staðan er í dag þá held ég að það verði eitthvað lítið úr því. Ég á bara eina og hálfa viku eftir af fyrirlestrum þ.e. út þessa viku, svo kemur verkefnavika í næstu viku þar sem engir fyrirlestrar eru og svo fer ég í eina viku í fyrirlestra og eftir það er ég kominn í upplestrarfrí. Er þessa stundina að vinna kynningu í International Service Marketing og þótt minn partur sé bara úr 2-3 blaðsíðum þá er þetta eitt erfiðasta verkefni sem ég hef gert því þetta er samhengislaust og óskiljanlegt rugl og kennarinn skilur þetta ekki einu sinni og gat engu svarað þegar við töluðum við hana en það klárast á föstudaginn.
Ég er líka loksins byrjaður á verkefninu mínu í markaðsfræðirannsóknum og það er mjög viðamikið þar sem við þurfum að vera með viðtöl við 5-6 manneskjur og hvert þeirra á að vera svona 45-60mín og satt best að segja þá erum við komin allt of stutt en þá er bara að setja upp vinnuhanskana :)
Í næstu viku er svo verkefnavika þar sem vinnum bara í lokaverkefnunum okkar og þar eru 3 einstaklingsverkefni sem ég þarf að byrja á og klára en svo í vikunni þar á eftir þ.e. eftir 2 vikur á morgun þá koma mamma, pabbi og Magnús í heimsókn til mín frá fimmtudegi-sunnudags en þarna á föstudeginum byrja ég einmitt í upplestrarfríi svo ég hef vonandi tíma til að taka á móti þeim. Nú strax og þau fara þarf ég svo að hella mér í að klára tvö verkefni, öðru sem ég skila á þriðjudeginum eftir þau fara og hinu í lok vikunnar svo ég þarf í rauninni að vinna í þeim í verkefnavikunni líka. Nú eftir það kemur svo heil vika þar sem ég er bara að læra undir próf á fullu og svo á mánudeginum 8. Des hefst fyrsta prófið mitt sem er í Markaðsfræðirannsóknum, svo 9. des fer ég í próf í alþjóðlegri þjónustumarkaðssetningu og enda þetta svo með látum 11. desember þegar ég tek próf Reiknis- og bókhaldi. Ég lýk því á hádegi og á svo flug heim kl 6 um kvöldið líklegast.
Eins og sést er ég með gjörsamlega pakkaða dagskrá þangað til að ég fer heim enda eru þetta ekki nema 35 dagar. Það þarf ekki að spyrja að því að ég sit núna upp á bókasafni eins og öll kvöld upp á síðkastið. Ég ætla mér samt að taka einn laugardag í að skjótast eitthvað út á land og ég tek þá bara námsbækurnar með mér ef því er að skipta :)
En svo ég tali nú eitthvað annað en skóla þá kom Sigrún til mín síðustu helgi og við gistum á Ripley Court Hotel sem var alveg ágætt. Svoldið kalt um nóttina, koddarnir voru grín og sturtan fyrir dverga en að öðru leiti bara fínt. Gerðum nú mest lítið þannig sérð. Fórum aðeins í Trinity College, sýndi henni skólann minn og svo gengum við um Dublin. Svo verslaði hún einhvern slatta og guð minn góður hvað ég er ekki þessi manneskja sem nennir að versla með kvenmönnum. Ég var gjörsamlega kominn með upp í kok af verslunum í lok helgarinnar en ég keypti mér samt einn geggjaðann trefil sem sést á myndinni hérna til hliðar. Við skelltum okkur líka tvisvar í bíó, á Ghost Town sem var mjög góð og nýju James Bond sem mér fannst mjög leiðinleg en kannski hefði ég bara þurft að horfa á Casino Royal aftur áður en ég sá þessa.
Ég er þegar byrjaður að kaupa jólagjafir, er búinn að kaupa gjöf handa pabba og Friðfinni og ætla að kaupa svipaða gjöf handa Magnúsi. Þetta eru í rauninni allt eins gjafir en samt alls ekki þær sömu og það er ekki hægt að kaupa þær í búðum... og þær eiga allar akkurat við manneskjuna sem fær þær... en nú má ég ekki segja meira því þetta er algjört leyndó sko ;)
Jæja ég hef hreinlega ekki efni á því að hafa þetta lengra tímalega séð þar sem ég þarf að halda áfram með þessa óskiljanlegu kynningu. Vonandi halda allir að þetta hafi verið svo háfleyg kynning að hún hljóti að hafa verið þvílíkt góð þótt þau skilji ekki neitt ;)
Dublinkveðja, Kolbeinn
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Grein í NY Times
2.11.2008 | 14:36
Ætlaði að benda fólki á þessa frábæru grein sem birtist í The New York TImes http://www.nytimes.com/2008/11/02/world/europe/02iceland.html?pagewanted=1&_r=1&hp
Gefur góða mynd af því sem hefur verið að gerast í samskiptum Breta og Íslendinga síðastliðnar vikur b.t.w. hún er á tveimur síðum.
Annars skilaði ég Sigrúnu upp á flugvöll áðan eftir góða og afslappaða helgi og hef síðan þá verið upp í skóla að læra. Ætla að skella inn nokkrum myndum á eftir og segja aðeins frá helginni þegar ég er búinn að læra örlítið meira ;)
B.t.w. núna eru 39 dagar, 3klst, 38mín og 50 sek þangað til að ég legg af stað heim :)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)