Kreppublogg og mánaðarafmæli
8.10.2008 | 18:03
Jæja þá er liðinn einn mánuður frá því að ég kom til Dublin. Ég lagði af stað frá Íslandi 5. September og kom svo til Dublin seint að kvöldi 8. september. Ef við gerum upp þennan mánuð þá er ekki hægt að segja annað en að hann hafi verið afskaplega skemmtilegur. Ég er búinn að skoða alla Dublin eins og ferðamaður, næstum því rændur, hitt frægt fólk, byrjað í skólanum, komið mér fyrir sem íbúi í Dublin, lært á þvottavél og ég veit ekki hvað og hvað.
Ég ætla nú ekki að gera neitt sérstakt til að fagna þessum mikla áfanga nema kannski að fá mér Frappuccino en ég sé samt til þar sem ég er að reyna að stöðva alla eyðslu þessa dagana enda kemur kreppan ekki síður í bakið á mér eins og öðrum og evran hoppar þessa dagana frá 131kr og upp í 172 en það er að vissu leiti mjög jákvætt þar sem ég eyði þá mjög litlu á meðan :)
Þrátt fyrir kreppuna ætla ég að skreppa til Köben eldsnemma á föstudagsmorgun og hitta þar Magnús, Heimi og Hjalta og ég bara vona að danska krónan haldist jafn lág og hún er akkurat núna en maður veit aldrei hvað gerist á morgun og á föstudag en það verður bara spennandi að sjá. Hvað sem gerist þá kem ég heim um jólin sæll og glaður og ég mun spjara mig, þetta ástand þýðir bara að maður þarf haga seglum eftir vindi og þótt vindurinn breytist ótt og títt þá reddast þetta allt saman.
Hér er svo mynd af mér á O'Connel Street í Dublin til sönnunar að ég sé enn við góða heilsu þrátt fyrir kreppuna :)
Nú þegar kreppan þrengir að hjá mörgum þá er nú gott að kunna góð sparnaðarráð og hér eru nokkur:
1. Þriggja laga klósettpappír er einhvern síðari tíma lúxus skapaður af græðgismönnum á þennslutímum sem töldu rassa sína svo viðkvæma að um þá þyrfti að fara mjúkum höndum en á tímum sem þessum þegar kreppan herðir að er alveg nauðsynlegt að fólk venji sig við harðneskjuna og þar eru klósettpappírsmál ekki undanskilin. Þegar í harðbakka slær þá þýða engin vetlingahandtök.
2. Eldhúsrúlla er líka einhver sá mesti óþarfi sem þjóðfélagið hefur fundið upp á í síðari tíð og ekki aðeins eru þær dýrar og óþarfi heldur eyða þær líka skóginum og það er aldrei gott. Á mínu heimili er þetta einfalt, til að þurka af höfum við hlut sem heitir tuska fyrir þá sem eru hættir að kannast við slíkt. Nú þegar fólk þarf að þurka sér um hendurnar þá er einfaldlega tekið eitt stykki viskustykki sem látið er hanga á ísskápshurðarhúninum og er það sérstaklega til að þurka sér í. Málið er dautt og fólk hefur sparað sér óheyrilega peninga.
3. Matarmál. Það er algjör misskilningur að það þurfi að vera dýrt að lifa í kreppu þó síður væri en málið er einfaldlega að breyta neysluvenjum sínum. Svarið liggur í einu orði: morgunmatur! Morgunmatur er nefnilega eitthvað sem maður fær aldrei nóg af eins og t.d. kornflakes og svo er það fáránlega einfalt að búa til, maður skellir nokkrum flögum í skál, skvettir smá mjólk á þetta og málið er dautt. Svo er líka hægt að fá morgunkorn í mjög stórum kössum sem sparar manni heilan helling. Önnur gerð af morgunmat er svo hinn klassíski hafragrautur. Það kostar nánast ekki neitt að kaupa haframjöl og eldunarfattlaður maður eins og ég getur eldað hafragraut og svo er hann alveg ótrúlega saðsamur og hollur í alla staði. Það er meira að segja hægt að gera hann á mismunandi vegu eftir því hversu hátíðlegt tilefnið er, hægt er að sjóða hann upp úr mjólk í staðinn fyrir vatni, hægt er að setja eina teskeið af smjöri út í hann til að fá hann mjúkan og góðan og síðast en ekki síst er hægt að sikra hann en það tekur auðvitað alla hollustu úr honum.
4. Tómstundir. Það vita auðvitað allir að bíóhúsin hafa á síðustu árum hækkað sín verð talsvert og það er ekki lengur fólki bjóðandi að kaupa þar nammi, popp eða kók. Lausnin er auðvitað að poppa einfaldlega heima og mæta með á pleisið, draga svo fram gamla Soda Stream tækið og búa sér til gos. Einnig vita auðvitað allir að bíómiði í dag er fáránlega dýr svo það er auðvitað lang sniðugast að halda eigin bíósýningar heima og bjóða vinunum yfir enda eiga flestir einhverjar dvd myndir sem hægt er að smella í spilarann að kostnaðarlausu.
Fleira var það ekki að sinni en eins og ég segi þá kem ég með blogg eftir helgi um ævintýri mín í Kaupmannahöfn.
Fannst þetta atriði frá fóstbræðrum passa svo akkurat við tíðarandann þessa stundina að ég ákvað að skella því hér inn
Athugasemdir
Þakka þér fyrir Kolbeinn minn. Eins og staðan er í dag þá er nauðsynlegt að hætta að kaupa eldhúsrúllur og borða mikinn morgunmat, hárrétt hjá þér.
Grétar (IP-tala skráð) 10.10.2008 kl. 09:31
Alltaf ráðagóður. Þetta er greinilega fjölþætt lífsreynsla hjá þér, að spjara þig í útlöndum og spara --- og búa í herbergi sem mér virðist ekki ná lengd þinni. Gangi þér allt í haginn. Hlakka til að sjá þig aftur. Pabbakveðja
Kristinn Ágúst Friðfinnsson, 16.10.2008 kl. 00:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.